Skil til kvikmyndahátíða
Kvikmyndahátíðir um heim allan eru misjafnar eins og þær eru margar.Það er því miður alltof algengt að erlendis starfi sjálfboðaliðar og annist sýningar á slíkum hátíðum og oftar en ekki hafa þessir sjálfboðaliðar fengið takmarkaða þjálfun í kvikmyndasýningarstjórn.
Að skoða óskir um efnisskil til slíkra hátíðar getur verið áhugavert og ekki endilega víst að hinn almenni kvikmyndaframleiðandi/leikstjóri sjái eitthvað athugavert við óskir um efnisskil. Svona efnisskil skjöl frá kvikmyndahátíðum óska oftast eftir DCP og svo má jafnvel sjá líka á slíkum skjölum að verið sé að biðja um Blu Ray, Apple ProRes, MP4 eða því um líkt.
En hvað er þá í lagi að senda?
Við þessari spurningu eru í raun til mörg ólík svör en henni verður hér svarað eins og um sé að ræða nýja íslenska bíómynd.
Encryptað/læst DCP er það eina sem ætti að senda slíkum hátíðum.
Þegar DCP er læst þýðir það að til þess að hægt sé að spila það þarf viðkomandi sýningarstaður að fá afhenta KDM lykla sem gefnir eru út á þeirra búnað sem gefur þeim leyfi til þess að spila kvikmyndina í ákveðinn tíma. Svona KDM lykill getur verið í gildi frá nokkrum klukkutímum og upp í daga, vikur, mánuði og þessvegna ár.
Eðlilegast er að kvikmyndahátíð fái lykil sem opnar einhverjum dögum fyrir hátíð ef þau vilja vera viss um að allt sé eins og það á að vera með kvikmyndina og svo rennur lykill út um leið og hátíð líkur.
Kosturinn við það að DCPið sé læst er sá að þegar Cinelab þarf að gefa út lykla á DCP sem þú ert búinn að láta okkur gera fyrir þig þá sjáum við alltaf nákvæmlega hverskonar búnað verið er að óska eftir lykil á og getum því sannreynt það strax að verið sé að sýna kvikmyndina þína með búnaði sem stenst allar þær kröfur sem gerðar eru til kvikmyndahúsa.
Hinsvegar ef að um Blu Ray disk væri að ræða getur enginn vitað í hverskonar búnaði þessi blu ray diskur verður spilaður. Það gæti þessvegna verið lélegur og dimmur skrifstofuskjávarpi og þú sem leikstjóri eða framleiðandi kvikmyndarinnar munt aldrei komast að því að myndin þín hafi lúkkað hræðilega á einhverri erlendri kvikmyndahátíð.
En ef ég sendi DCP sem er ólæst?
Já, þá ertu yfirleitt í betri málum en að senda Blu ray eða MP4 því við skulum vona að þetta ólæsta DCP verði þá sýnt í vottuðum bíósal. En til eru ýmis forrit fyrir hefðbundnar tölvur sem geta spilað ólæsta DCP pakka þannig þú getur aldrei verið viss um að DCP-ið verði ekki bara spilað af tölvu sem er tengd við næsta lausa fundaherbergisskjávarpa sem er gerður fyrir powerpoint fyrirlestra en ekki kvikmyndasýningar.
Svo lokaorðin eru þau, þú sem kvikmyndaframleiðandi eða leikstjóri ættir ekki að vilja senda sýningareintak frá þér öðruvísi en að það sé læst DCP eintak. Því það er eina leiðin til að tryggja það að kvikmyndin verði spiluð í vottuðum bíósal og njóti sín í hljóð og mynd.
F.h. Cinelab
Gunnar Ásgeirsson